Ferill 754. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1473  —  754. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Ráðuneytið hefur að leiðarljósi mannauðsstefnu Stjórnarráðsins við ráðningar. Stefnan er öllum aðgengileg á vef Stjórnarráðsins. Ráðuneytið hefur ekki mótað sérstaka stefnu um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu. Í stefnunni segir m.a. að allt starfsfólk eigi að hafa sömu möguleika til að nýta hæfileika sína í starfi og eigi ekki að sæta mismunun af nokkrum toga. Í rammagrein 15 í fjármálaáætlun 2023–2027 er lýst þeirri stefnu ríkisins að fjölga markvisst sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Lögð er áhersla á að þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði verði auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað. Ráðuneytið og stofnanir þess starfa jafnframt á grundvelli laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
    Ráðuneytið hefur ekki beitt sér fyrir slíkri stefnumótun meðal stofnana sinna. Forstöðumenn stofnana fara með framkvæmd mannauðsmála sinna og ber að móta sínar stefnur í samræmi við gildandi lög og reglur. Undirstofnanir ráðuneytisins eru fimmtán. Þær eru: embætti landlæknis, Geislavarnir, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Landspítali, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og vísindasiðanefnd.
    Leitað var upplýsinga um það hjá stofnunum ráðuneytisins hvort þær hefðu mótað sér stefnu um ráðningar starfsfólks með skerta starfsorku. Svör bárust frá öllum stofnununum að frátöldu Sjúkrahúsi Akureyrar. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu eru þær almennt ekki með formlega stefnu hvað þetta varðar. Þó ber að nefna að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur sett sér og birt á vef stofnunarinnar jafnréttis- og mannréttindastefnu sem lýtur að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda, m.a. óháð fötlun. Í svari Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands kemur fram að þar sé vinnuregla hjá stofnuninni að meta ávallt hvort að starf geti hentað fólki með skerta starfsorku. Ef svo er sé haft samband við Vinnumálastofnun til að kanna hvort að þar séu á skrá einstaklingar með skerta starfsorku sem starfið gæti hentað. Í svari frá Heilbrigðisstofnun Austurlands kemur fram að þótt ekki liggi fyrir formleg stefna um ráðningar starfsfólks með skerta starfsorku hafi verið rædd og ítrekuð á fundum stjórnenda sú áhersla að starfsfólkið eigi að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins.
Mótun skýrrar stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku
Heilbrigðisráðuneytið Nei en er í vinnslu.
Heilbrigðisstofnun Austurlands Nei – sjá athugasemd.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Nei.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja Nei.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Nei.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Nei.
Heilbrigðisstofnun Vesturlands Nei.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins Nei.
Embætti landlæknis Nei.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands Nei – sjá athugasemd.
Sjúkratryggingar Íslands Nei.
Geislavarnir ríkisins Nei.
Landspítali Nei.
Lyfjastofnun Nei.
Sjúkrahúsið á Akureyri Ekki barst svar innan frests.
Vísindasiðanefnd Nei.


     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Vegna fyrirspurnarinnar hafa mannauðsstjórar Stjórnarráðsins fundað og ákveðið að taka fyrir mótun stefnu sem á að vera tilbúin fyrir árslok 2023. Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Með vísan í svar við 1. tölul. fyrirspurnar þá er það stefna Stjórnarráðsins að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsorku.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Fjöldi starfsfólks með skerta starfsorku
Fullt starf Hlutastarf
Heilbrigðisráðuneytið 0 1
Heilbrigðisstofnun Austurlands Engin tölfræði til. Engin tölfræði til.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 0 3
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 0 2
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Engin tölfræði til. Engin tölfræði til.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 0 6
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 0 2
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins Engin tölfræði til. Engin tölfræði til.
Embætti landlæknis 0 0
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands 0 0
Sjúkratryggingar Íslands 0 1
Geislavarnir ríkisins 0 0
Landspítali Engin tölfræði til. Engin tölfræði til.
Lyfjastofnun 0 0
Sjúkrahúsið á Akureyri Barst ekki svar. Barst ekki svar.
Vísindasiðanefnd 0 0
    
    Í töflunni hér að framan eru upplýsingar um fjölda starfsfólks með skerta starfsorku á hlutaðeigandi stofnunum. Eins og fram kemur í svörum sumra stofnananna er skráning upplýsinga um fjölda starfsfólks með skerta starfsorku bundin við að viðkomandi sé í starfinu á grundvelli vinnusamnings við Vinnumálastofnun. Geti fólk sinnt starfi sínu og þurfi ekki sérstök úrræði á vinnustaðnum sé ekki skráð sérstaklega þótt viðkomandi sé með skerta starfsorku. Þetta kemur til að mynda fram í svari Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem bendir á að ýmsar ástæður geti legið að baki því að fólk kjósi að ráða sig í hlutastarf. Stofnunin haldi ekki sérstaka skrá um starfsfólk með skerta starfsorku í hlutastarfi, enda sé starfsfólki ekki mismunað á grundvelli þess.

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Ráðuneytið telur eitt hlutastarf henta einstaklingi með skerta starfsorku. Hjá embætti landlæknis liggur fyrir það mat að ekkert starf þar henti einstaklingi með skerta starfsorku. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins telur að þar geti öll hlutastörf hentað einstaklingum með skerta starfsorku svo framarlega sem hlutaðeigandi hafi faglega hæfni til að sinna starfinu og starfsorku í auglýst starfshlutfall. Aðrar stofnanir ráðuneytisins hafa ekki lagt formlegt mat á hve mörg störf geti hentað fólki með skerta starfsorku.